86% leigjenda vilja búa í eigin húsnæði

487

Grein eftir Andra Stein Hilmarsson, formann umhverfis og samgöngunefndar og varabæjarfulltrúa

Í könnun sem Íbúðalánasjóður gerði á síðasta ári kemur skýrt fram að langflestir þeirra sem nú eru á leigumarkaði kysu heldur að búa í eigin húsnæði. Spurt var hvort leigjendur myndu velja að búa í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði ef nægilegt framboð væri af öruggu húsnæði og nægilegt framboð væri af húsnæði til kaups og vöruðu 86% svarenda að þeir kysu þá að búa í eigin húsnæði.

Þessar niðurstöður endurspegla með engum hætti umræðuna um húsnæðismál þar sem allt kapp virðist lagt á uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis hjá verkalýðsfélögum og vinstri flokkunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi talað fyrir séreignarstefnu í húsnæðismálum, að hún sé ein leið að því markmiði að launafólk búi við fjárhagslegt sjálfstæði sem fylgir eignamyndun. Að eignamyndun millistéttarinnar standi á tveimur stoðum, á lífeyrisréttindum og verðmæti eigin húsnæðis. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á liðnum árum verið leiðandi í fjölgun íbúðarhúsnæðis á öfuðborgarsvæðinu. Dæmin sjáum við í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í meirihluta. Íbúum fjölgaði meira í Kópavogi en í Reykjavík frá 1. Janúar 2013 til 1. janúar 2017, en fjölgunin í Kópavogi nam 3.520 íbúum á tímabilinu en 3.482 íbúum í Reykjavík. Ef við horfum á íbúaþróun í sveitarfélögunum tveimur að 2019 þá fjölgaði Kópavogsbúum um 16,5% en Reykvíkingum aðeins um 7,5%. Það er verk sveitarstjórnarmanna að láta ekki undan háværum þrýstingi um uppbyggingu leiguhúsnæðis á kostnað séreignarstefnunnar. Stefna í húsnæðismálum á að mótast með hliðsjón af óskum almennings.86% leigjenda kjósa að búa í eigin húsnæði. Verkefnið framundan er skýrt.