Bær barnanna

590

Grein eftir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóra

Kópavogur hefur lengi haft metnað fyrir því að vera bær barnanna. Mikill metnaður hefur verið lagður í skóla, íþróttastarf og ýmis konar afþreyingu og þjónustu sem börn njóta góðs af. Undanfarið höfum við lagt enn meiri metnað og vinnu í að hlúa að börnunum okkar og vonandi skilar það sér í enn betri bæ fyrir mikilvægasta fólkið. Ég ætla að nefna nokkur atriði sérstaklega. Vorið 2018 var samþykkti í Bæjarstjórn Kópavogs að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í allt starf bæjarins. Unnið hefur verið markvisst að því síðan þá í samstarfi við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Þegar innleiðingu er lokið fær bærinn stimpilinn barnvænt sveitarfélag og kemst þá í hóp bæja og borga um allan heim.

Meðal verkefna sem unnið hefur verið að hér í Kópavogi í tengslum við innleiðinguna er Mælaborð barna en því er ætlað að safna gögnum til að ná fram betri mynd af stöðu barna í samfélaginu hverju sinni og beina sjónum stjórnvalda að verkefnum sem brýnt er að takast á við og forgangsraða. Mælaborðið hefur verið unnið og þróað í Kópavogi og er samstarfsverkefni við félagsmálaráðuneytið. Þess má geta að verkefnið hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu UNICEF (Child Friendly Cities Initiativ Inspire Awards) fyrir framúrskarandi lausnir og nýsköpun í nærumhverfi barna. Verðlaunin voru veitt á ráðstefnu í Köln sem haldin var í haust. Á þessari sömu ráðstefnu undirritaði ég yfirlýsingu borgar- og bæjarstjóra hvaðanæva að um skuldbindingu baráttu fyrir réttindum barna. Með yfirlýsingunni skuldbinda bæirnir sig til að leggja árherslu á bætta líðan barna, að börnum verði tryggð jöfn tækifæri, styrkt og efld í þroska og þátttöku í samfélaginu. Árangur þess á að sýna með mælanlegum hætti, og þar stöndum við í Kópavogi vel að vígi.

Við höfum líka lagt áherslu á snemmtæka íhlutun í málefnum barna sem eiga við erfiðar aðstæður að stríða. Mikil samvinna er á milli velferðarsviðsins okkar og menntasviðs en markmiðið er að bregðast strax við þegar vísbendingar eru um að börn hafi það ekki nægilega gott.

Það er fleira sem mig langar að minnast á. Hér var stofnað ungmennaráð fyrir nokkrum árum sem fundar reglulega. Það fundaði með bæjarstjórn í vor og lagði fram mál sem voru afrakstur ungmennaþings sem haldið var síðastliðinn vetur. Þátttaka barna og ungmenna er mikilvæg og það að tryggja aðkomu barna að ákvarðanatöku er einmitt einnig hluti af innleiðingu Barnasáttmálans. Við erum farin að stíga skrefin til að tryggja hana og munum halda áfram á þeirri braut.

Þá var mjög skemmtilegt þegar börn í fimmta bekk kynntu sín áherslumál á málþinginu Krakkaveldi sem haldið var á Alþjóðlegum degi barna 20. Nóvember síðastliðinn en þá fagnaði Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 30 ára afmæli. Undirritaður fékk afhenta ályktun þeirra um eigin framtíð og átti mjög gott samtal
við börnin ásamt fleiri góðum gestum. Afmælisdagurinn var síðan haldinn með pompi og pragt í Kópavogi og var mjög gaman að fylgjast með hátíðarhöldunum
og glæsilegri dagskrá sem sýndi vel fjölbreytileika barnamenningar í Kópavogi, listasýningar, loftslagsverkefni og tónleikar svo eitthvað sé nefnt. Loks má þess geta að nú er opin samráðsgátt um innleiðingu Barnasáttmálans í Kópavogi og geta áhugasamir sett inn hugmyndir að því hvernig standa megi að innleiðingu Barnasáttmálans.

Það er óhætt að segja að Kópavogsbær leggi áherslu á málefni barna og er ég mjög stoltur þessum áherslum, börnin eru framtíðin og þau ber að rækta.