Árangur okkar allra

412

Framundan eru bjartir tímar í Kópavogi og mikilvægt að nýta þau tækifæri sem blasa við.

Kópavogur er það sveitarfélag sem undanfarin ár hefur haft mesta fólksfjölgun meðal annars vegna þess að hróður sveitarfélagsins meðal landsmanna hefur hratt borist út. Samkvæmt könnunum bæði innlendum og alþjóðlegum eru grunnskólar Kópavogs í hópi þeirra fremstu og biðlistar á okkar góðu leikskóla að styttast. Öll aðstaða til íþróttaiðkunar er til fyrirmyndar og óhætt að segja að hún sé sú besta á landinu.

Tækifærin innan grunnskólanna felast meðal annars í því að auka fjárhagslegt sjálfstæði þeirra og að tryggja aðkomu foreldra að faglegum þáttum rekstri þeirra. Við viljum auka valfrelsi í leikskólamálum þannig að fjölbreytt flóra hinna mismunandi áherslna í leikskólafræðum fái að njóta sín. Þar er valfrelsi lykilorðið.

Kópavogur er sannkallaður íþróttabær. Öflugt íþróttalíf er besta forvarnarúrræðið. Seint verður þakkað öllum þeim hundruðum fagaðila og foreldra sem undir þessu mikilvæga starfi standa. Hin glæsilegu íþróttamannvirki bæjarins, undir faglegri stjórn íþróttafélaganna eru einungis grunnur þessa mikilvæga starfs. Aðalatriðið er samt fjölbreytnin og hinn sanni íþróttaandi sem skila mun okkar glæsilegu ungmennum inn í framtíðina.

Á næstu misserum verða svæði skipulögð undir nýja íbúðabyggð í Kópavogi. Þar gefst okkur dýrmætt tækifæri til að vera í fararbroddi varðandi ódýrari húsnæðisúrræði fyrir ungt fólk, þá sem eru að leita eftir nýjum húsnæðiskosti sem og ódýrari úrræði fyrir eldri borgara. Með fjölgun íbúa og nýrra atvinnutækifæra í bænum skapast svigrúm til lækkunar á skuldum bæjarstjóðs og skattalækkana, heimilum bæjarins til góða.

Það sem skiptir öllu máli er að sérhver Kópavogsbúi geti verið stoltur af sínu bæjarfélagi. Við munum hugsa inn á við og hlúa að hverfum bæjarins. Árangurinn er okkur öllum í hag og við erum að uppskera.

Á morgun, laugardag, göngum við að kjörborði Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og kjósum okkur forystu fyrir næstu bæjar- og sveitarstjórnarkosningar. Ég legg stoltur og óhikað fram verk mín sem bæjarstjóri og óska eftir umboði til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi til sigurs í vor.

Ármann Kr. Ólafsson
Bæjarstjóri