Nýir tímar – nýir stjórnunarhættir í Kópavogi

457

Kópavogur á skilið samhenta og sterka forystu

Kæri sjálfstæðismaður í Kópavogi. Á laugardaginn gefst þér kostur á að hafa áhrif á bæjarmálin. Það getur þú gert með því að taka þátt í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kópavogi þar sem ég býð mig fram í fyrsta sæti.

Ég vil sem Kópavogsbúi leggja mitt á vogarskálarnar til þess að gera Kópavog að fyrirmyndar bæjarfélagi. Ég tel að reynsla mín af nútímalegum stjórnunarháttum og rekstri Menntaskólans í Kópavogi, ekki hvað síst á síðustu árum þegar mikillar hagræðingar var þörf, geti nýst bæjarfélaginu vel.

Bæjarstjórn er það stjórnvald sem stendur næst íbúum og gegnir því veigamiklu hlutverki við mótun hvers bæjarfélags. Með aukinni áherslu á þjónustuhlutverk sveitarfélaga verður samráð við þá sem njóta þjónustunnar, þ.e. íbúana sjálfa, stöðugt mikilvægara. Því má segja að sérhver sveitarstjórn gegni leiðtogahlutverki við að tryggja góða þjónustu. Ég legg því ríka áherslu á stjórnunarhætti þar sem sátt og samhugur ríkir til að hægt sé að ná fram sem bestri þjónustu við alla íbúa Kópavogs.

Vettvangur minn hefur verið á sviði skólamála. Í Kópavogi eru reknir góðir skólar en ætíð er hægt að gera betur, ef svigrúm er skapað til þess. Við skulum hafa það í huga að um sjötíu prósent af tekjum bæjarsjóðs fara í skóla-, tómstunda- og íþróttamál. Í Kópavogi starfa öflug íþróttafélög með fjölbreyttu starfi sem mikilvægt er að styrkja til að allir iðkendur fái tækifæri og aðstöðu til að ná sem bestum árangri, enda felast í því starfi miklar forvarnir. Einnig má ekki gleyma þeim sem gerðu Kópavog að því sem hann er í dag. Málefni aldraðra eru mér mjög hugleikin og finnst mér tvímælalaust að það sé skylda hvers bæjarfélags að búa svo um hnútana að aldraðir geti notið ævikvöldsins.

Ungt fólk þarf að fá tækifæri til að koma yfir sig þaki og vera öruggt um að börnin komist inn í leikskóla. Bæta þarf menntunarúrræði fyrir fatlaða, ekki síst geðfatlaða og auðvelda þeim að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Að sama skapi þarf að huga að þeim í bæjarfélaginu sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, efla þátttöku þeirra og virkja þann mannauð og þekkingu sem erlendir einstaklingar búa yfir til góðra verka.

Ég mun leggja mig fram um að eiga góða samvinnu við alla Kópavogsbúa, allt starfsfólk bæjarins, hvar sem það kemur að verki, svo og fólk í öllum flokkum. Kópavogur á skilið að fá samhenta og sterka forystu. Ég heiti á alla Kópavogsbúa að leggja mér lið í þessari nýju vegferð minni.

Margrét Friðriksdóttir
gefur kost á sér í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.