Ekki gleyma að leiðrétta ranglætið

447

„Þið megið nú samt ekki gleyma því að leiðrétta óréttlætið,“ sagði eldri maður við mig fyrir skömmu um leið og hann tók undir nauðsyn þess að rétta við hag heimilanna og hefja nýja sókn í atvinnumálum.

Gamli maðurinn hafði áhyggjur af því að stjórnmálamennirnir væru svo uppteknir af vandamálum líðandi stundar að þeim gæfist lítill eða enginn tími til að huga að mörgum öðrum brýnum málum.

Í mörg ár hefur flestum verið ljóst það óréttlæti sem viðgengst í lífeyrismálum landsmanna. Þjóðin skiptist í tvo hópa. Í öðrum eru þeir sem njóta ríkisábyrgðar á lífeyrisréttindum. Í hinum hópnum eru þeir sem þurfa að sætta sig við að lífeyrisréttindin skerðist ef illa gengur við ávöxtun fjármuna lífeyrissjóðanna. Til að bæta gráu ofan á svart þarf síðari hópurinn að axla þyngri byrðar til að tryggja lífeyrisréttindi þeirra sem tilheyra fyrri hópnum.

Þetta finnst mínum gamla vini vera óréttlæti – mismunun af versta tagi.

Óréttlætið aukið
Í liðlega fjögur ár hefur ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og norræna velferð haft tækifæri til að leiðrétta það sem miður fer í lífeyrismálum landsmanna. Engin tilraun var gerð til þess, heldur þvert á móti var ranglætið aukið enn frekar með eignaupptökuskatti, sem nefndur er auðlegðarskattur í lagagreinum til að kasta ryki í augu almennings.
Eignaupptökuskatturinn hefur lagst þungt á þá sem lokið hafa störfum. Hið sama á við um atvinnurekandann sem hefur bundið stærsta hluta ævisparnaðarins í eigin fyrirtæki. Til að hámarka tekjur af eignaupptökuskattinum ákvað ríkisstjórnin að endurmeta verðmæti fyrirtækja. Margir sjálfstæðir atvinnurekendur og eldri borgarar hafa neyðst til að stofna til skulda og/eða selja eignir til að standa undir skattheimtu, sem getur aldrei talist annað en upptaka eigna.

Á meðan almenningur horfir á Skattmann éta ævisparnaðinn hægt og bítandi upp, eru hundraða milljóna lífeyrisréttindi undanþegin skatti og það sem meira er, réttindin eru með bakábyrgð skattgreiðenda. Þannig er almennum launamönnum og sjálfstæðum atvinnurekendum refsað en þeir sem gert hafa þingmennsku að ævistarfi, njóta friðhelgi.

Gamalt kjörorð sjálfstæðismanna
Ekki er hægt að deila við gamla manninn sem telur stóran hluta þjóðarinnar sæta órétti. Verkefni þeirra sem veljast á Alþingi í komandi kosningum, er ekki aðeins að tryggja fjárhagslega afkomu heimilanna og frjóan jarðveg fyrir öflugt atvinnulíf, heldur ekki síður að leiðrétta ranglæti.

Óréttlætið í lífeyrismálum er smánarblettur þar sem sumir eru jafnari en aðrir. Fyrsta „hreina“ vinstristjórnin jók ójöfnuðinn og beit höfuðið af skömminni með umfangsmiklum skerðingum á lífeyri þeirra sem lokið hafa starfsævinni.

Á komandi kjörtímabili væri því gott fyrir þingmenn allra flokka að hafa í huga gamalt kjörorð Sjálfstæðisflokksins:

Gjör rétt, þol ei órétt.