Fólkið aftur heim

429

Ég vil búa á Íslandi og skapa fjölskyldu minni ásættanleg skilyrði til þess að eiga hér heimili. Ég hef eins og aðrir þurft að horfa á eftir fólki úr landi. Einstaklingum sem hafa gefist upp í atvinnuleitinni, gefist upp fyrir skuldum og síðast en ekki síst gefið upp alla von um að hér breytist nokkuð til betri vegar. Ég tel að ein alvarlegasta ógnin sem að okkur steðja núna er mannauðsflóttinn sem hér hefur ágerst á tímum vinstri velferðarstjórnarinnar. Um leið og ríkisstjórnin hefur hreykt sér af minnkandi atvinnuleysi, gleymir hún að nefna til hversu margir eru í hlutastörfum, í átaksverkefnum, komnir aftur í nám, farnir til útlanda eða komnir á framfærslu sveitafélaganna.

Frá árinu 2009 hefur um 2,7% þjóðarinnar flutt af landi brott sem er gífurlega hátt hlutfall af ekki stærri eyþjóð. Alltof margir hafa ákveðið að hag sínum sé betur borgið annarsstaðar. Við vitum af hryllilegum staðreyndum þess efnis að hér séu heilu stéttirnar að hverfa úr landi og ég nefni hér sérfræðilækna sérstaklega og núna mér vitanlega er til dæmis er enginn barnagigtarlæknir starfandi á Íslandi. Þetta er afleiðing helsjúks atvinnulífs og blóðtöku af mannauðnum sem ekki verður unað við öllu lengur. Ýmsar starfsstéttir eru orðnar ,,aldraðar“ og nýliðun lítil. Ég þekki þess dæmi að fólk á eftirlaunaaldri hefur beinlínis verið „kallað inn“ til starfa vegna þess að ekki fannst neinn með þá menntun og reynslu sem fyrirtækinu vantaði.

Ég tel að brottfluttu Íslendingarnir eigi það meira og minna sameiginlegt að bíða eftir því að aðstæður breytist ,,heima“ svo þeir geti snúið aftur. Hér bíðum við eftir því að fá ástvinina okkar heim. Til þess þurfa aðstæður að breytast. Hér þarf fjárfesting að fara af stað svo að atvinnutækifærum fjölgi og síðast en ekki síst atvinnuöryggi aukist. Eins og staðan er í dag eru mörg fyrirtæki orðin þreytt á óhóflegri skattastefnu ríkisins og því skekkta samkeppnisumhverfi sem hér ríkir vegna afskrifta tiltekinna fyrirtækja. Það er ekki sjálfgefið að einstaklingar séu í atvinnurekstri því ábyrgðin sem því fylgir er ekki fyrir hvern sem er og oft vanmetin. Eigendur fyrirtækja bera ekki bara ábyrgð á að eiga fyrir sköttum og skyldum, heldur afkomu heilu fjölskyldnanna.

Mér er það algerlega óskiljanlegt þegar Sjálfstæðisflokkurinn er gagnrýndur fyrir að vilja lækka skatta sé öðrum flokkum hampað fyrir að ætla draga kanínur úr hatti. Lækkun skatta hefur bein áhrif á þær ráðstöfunartekjur sem við höfum í veskjum okkar. Við verðum öll áþreifanlega vör við það hversu hátt vöruverð er orðið og alltaf fæst minna fyrir hverjar þúsund krónur. Einföldun á tollakerfi og aðflutningsgjalda er löngu tímabært.
Sjálfstæðiflokkurinn hefur komið með raunhæfar lausnir fyrir einstaklinga og heimili. Við ætlum líkt og aðrir flokkar, ekki gefa tommu eftir í samningaviðræðum við hina umtöluðu vogunarsjóði. Ef þetta svigrúm myndast sem vonast er eftir verður það að sjálfsögðu nýtt það til góðra verka heimilunum og samfélaginu öllu til góða. Ekki skortir hugmyndirnar um nauðsynleg verkefni sem þarf að ráðast í og vil ég nefna hér sérstaklega heilbrigðis- og menntakerfið okkar. Við gefum okkur niðurstöðuna í þessum samningaviðræðum samt sem áður ekki fyrirfram því það er einfaldlega óábyrgt.

Það er merkilegt fyrir nýliða eins og mig hlusta á gagnrýni þess efnis að stjórmálamenn séu sífellt að lofa upp í ermarnar á sér um leið og mikill þrýstingur er á að gefa kjósendum risavaxin loforð um blóm í haga án mikillar ábyrgðar. Ég hef valið að vera algerlega hreinskilin við þá sem við mig tala. Ég segi að næstu ár verði erfið og það taki tíma fyrir okkar þjóð að vinna sig úr efnahagslægðinni. Þetta er langhlaup, en þegar upp er staðið verðum við með pálmann í höndunum og reynslunni ríkari. En til þess að svo verði tel ég það brýnt að Sjálfstæðisflokkurinn leiði næsta ríkisstjórnarstarf og skapi hér loks þær aðstæður að við tökum fagnandi og fegins hendi aftur við fólkinu okkar sem bíður þess að snúa heim til Íslands.