Forðum því að ríkisstjórnarflokkarnir komist til valda á ný

382

 Nýlega birti Ríkisútvarpið niðurstöðu könnunar sem fjallaði um mikilvægustu málaflokkanafyrir næsta kjörtímabil. Þar kom fram með afgerandi hætti að fólk taldi að skuldamál heimilanna væri mikilvægasti málaflokkurinn en þar á eftir komu heilbrigðismálin og atvinnu- og skattamál.  Fleiri en 25% nefndu þessa málaflokka. Það vakti svo athygli að megin málaflokkar ríkisstjórnarinnar, Evrópumálin og stjórnarskrármálið voru nefndir af innan við 20%. Þetta sýnir okkur tvennt. Í fyrsta lagi að þau málefni sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á fyrir komandi kosningar eru algerlega í takt við það sem þjóðin telur að leggja beri megin áherslu á og svo hitt að ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að einbeita sér að málum allt kjörtímabilið sem þjóðin telur ekki vera mikilvæg þ.e. Evrópusambandsumsóknina og stjórnarskrármálið. Það er niðurstaðan þrátt fyrir allan áróður ríkisstjórnarinnar. Vandræðalegast er svo að bæði málin döguðu uppi á þingi og enginn veit hvernig þeim mun reiða af í framtíðinni.

 Kjósendur standa nú frammi fyrir því að velja ríkisstjórn til næstu fjögurra ára. Það er í þeirra höndum að ákveða hvort hér muni aftur verða ríkisstjórn sem mynduð verður um áherslur vinstri flokkanna eða hvort snúið verður af þeirri braut. Eina örugga leiðin til þess að segja skilið við málaflokka sem þjóðin telur að litlu máli skipti er að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn fái umboð til þátttöku í næstu ríkisstjórn. Um leið er tryggt að þeir málaflokkar sem þjóðin telur að séu mikilvægastir verða forgangsmál á næsta kjörtímabili. Það er m.ö.o trygging fyrir því að tekið verði á skuldavanda heimilanna, trygging fyrir því að heilbrigðiskerfið fari á ný að njóta þess forgangs sem því ber við gerð fjárlaga, trygging fyrir því að skattar verði lækkaðir og meira verði eftir í buddunni og trygging fyrir því að atvinnulífið fari að blómstra á ný og að kaupmáttur aukist.

 Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins er þannig upp byggð að hægt er að ganga til verka strax að kosningum loknum. Það er engin óvissa þar vegna samninga við erlenda aðila. Það skal hins vegar ekki gert lítið úr nauðsyn þeirra samninga enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn sagt að heimilin muni njóta þeirra. Ekki er hins vegar ljóst hvenær samningar munu nást en afrakstur þeirra yrði eins konar bónus ofan á þær aðgerðir sem gengið yrði til strax að kosningum loknum. Með vinstri flokkana um borð í ríkisstjórn er hægt að ganga út frá því sem vísu að þeir málaflokkar sem kjósendur leggja mesta áherslu á munu ekki komast á dagskrá. Verkin sýna merkin og það getum við séð á „afrekum“ þessarar fyrstu vinstri stjórnar. Hún hafði það eitt að markmiði að klára kjörtímabilið. Verkefnin voru aukaatriði þegar líða tók á kjörtímabilið.

Ég vil hvetja kjósendur til þess að bera saman stefnuskrár flokkanna og framboðslista þeirra einnig. Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins hefur á að skipa mjög hæfum einstaklingum með breiðan bakgrunn. Fólki sem hefur sýnt á Alþingi að það getur tekið á erfiðum málum, fylgt þeim eftir á málefnalegan og ábyrgan hátt. Það hefur ekki hlaupið út og suður eftir því hvernig vindar blása hverju sinni, heldur sýnt staðfestu eins og glöggt mátti sjá í Landsdómsmálinu. Þeir sem koma nýir inn á listann hafa sýnt í störfum sínum að þeir eru traustsins verðir og hafa tekið til hendinni á ólíkum sviðum.

 Tryggjum öfluga endurreisn Íslands þar sem heimilin eru höfð í fyrirrúmi. Tryggjum endurreisn þar sem einstaklingarnir njóta athafnasemi sinnar en er ekki refsað í gegnum skattkerfið. Tryggjum endurreisn þar sem fyrirtækjunum er búið umhverfi sem eflir þau svo að þau hafi burði til að hækka hér laun og standa undir velferðarkerfinu með okkur hinum.