Hugsum stórt og byggjum nýtt háskólasjúkrahús

398

Mælikvarðar á lífskjör

Það eru til nokkrir einfaldir mælikvarðar á lífskjör þjóða. Einn er ungbarnadauði og annar er langlífi. Á báða þessa mælikvarða hefur Ísland náð langt eftir þrotlausa baráttu við uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og kennslu heilbrigðisstétta. Það er ástæðulaust að gefa eftir í þeim efnum þótt móti hafi blásið á liðnum árum. Nú er starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss á fjölmörgum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæði við Hringbraut og í Fossvogi er komið að þolmörkum. Gleymum því ekki að sjúkrahús og heilbirgðisþjónusta er fyrir fólkið sem byggir landið. Hagræðing af sameiningu mun verða um 2,5 milljarðar á ári. Nýtt sérhannað húsnæði dregur einnig mjög úr spítalasýkingum sem eru mjög kostnaðarsamar og eykur almennt öryggi sjúklinga. Allir þessir þættir stuðla að styttri legulengd sjúklinga,  aukinni framleiðni og þar með lægri rekstrarkostnaði.

Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu mun vaxa

Fyrir liggur að kostnaður við rekstur Landspítala, eina háskólasjúkrahúss landsins, mun fara vaxandi á næstu árum og áratugum af ýmsum sökum. Tvennt vegur þyngst, þ.e. aukin tíðni langvinnra og öldrun þjóðarinnar. Erlendar rannsóknir sýna að um 65% kostnaðar við heilbrigðisþjónustu stafar af langvinnum sjúkdómum, svo sem hjartasjúkdómum, stoðkerfissjúkdómum, krabbameini, sykursýki, offitu og langvinnum lungnasjúkdómum. Þetta hlutfall er um 95% meðal aldraðra enda þjást langflestir aldraðir af einum eða fleiri langvinnum sjúkdómi.

Spá um íbúaþróun

Samkvæmt spá Hagstofu Íslands mun Íslendingum, 65 ára og eldri, fjölga mjög hratt á næstu árum eða um 50% (úr 42.000 í 62.000) fram til ársins 2025, þ.e. á næstu 12 árum. Þessi aldurshópur er sá sem mest nýtir sér þjónustu Landspítala en hann tekur þegar til sín 45% af legudögum þó svo hann sé einungis 14 % af heildaríbúafjölda landsins.

Við óbreytt ástand kallar fjölgun þessa hóps um 50% á samsvarandi fjölgun legudaga á LSH. Þessi hópur sem er að komast á eftirlaunaaldur á næstu árum er fyrsta kynslóðin sem fær sem næst fullar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Það eru umskipti frá því lífeyrissjóðirnir voru að vaxa vegna lítillar lifeyrisbyrðar

Viðráðanlegur kostnaður

Það er því ljóst að kostnaður við rekstur sjúkrahússins mun vaxa mjög hratt á næstu árum ef ekki verður að gert. Auk þess eru litlar líkur á  að sjúkrahúsið geti annað þessari auknu eftirspurn miðað við núverandi aðstæður þar sem nýting legurýma er þegar full eða jafnvel umfram það sem ásættanlegt getur talist út frá öryggi sjúklinga.

Ofangreindir þættir varðandi þróun húsakost Landspítala og sameina þannig alla bráðastarfsemi á einum stað rekstrarkostnaðar og eftirspurnar eru meðal helstu raka fyrir nauðsyn þess að endurbæta.

Hagkvæmni byggir á greiningu

Greining á hagkvæmni byggir á þeirri grundvallarstaðreynd að kostnaður við heilbrigðisþjónustu mun fara vaxandi á næstu árum og áratugum en með því að nýta það hagræði sem nýtt og sérhæft húsnæði hefur í för með sér megi draga úr þeirri hækkun þó ekki sé unnt að snúa þróuninni við.

Það er von allra að kreppustjórnun linni. Á árunum frá 1925 til 1930 gat fátæk þjóð byggt Landspítalann. Þrátt fyrir það sem á hefur gengið á liðnum árum, er ekkert sem segir að uppbygging innviða sé bannorð. Uppbygging innviða er lausn. Á síðustu 5 árum hafa verið greiddar um 80 milljarðar króna í atvinnuleysisbætur. Engin hefur talið þá blóðpeninga eftir. Kostnaður við uppbyggingu nýs háskólasjúkrahúss er innan við þessa fjárhæð. Hinn þungi kostnaður, sem fellur til vegna erlendra aðfanga, fellur til á árunum frá 2016 – 2018.

Það þing sem verður kosið þann 27. apríl þarf að taka af skarið og sýna stórhug og framsýni. Það er dýrt að hugsa smátt. Bútalausnir verða dýrari en stórhugur.