Í heitapottinum

467

Ég sat í pottinum fyrir skömmu í Salalaug. Þangað settist hópur af ungum strákum, líklega á menntaskólaaldri. Ég eins og aðrir fór að hlusta á hvað þeim fór á milli, enda voru þeir ekki að fela samræður sínar.

Þeir ræddu mikið um hvað það væri ,,hellað“ að kíkja upp í Heiðmörk og grilla, þeir sögðust ekki finna neitt ,,spiritúlaitý“ í að lyfta lóðum í ræktinni og eitt og annað var ,,vangefið kúl“ og svo framvegis. Ég og fleiri vorum farin að brosa yfir þessum umræðum og flissandi yfir því að þeir vissu ekki hvað prímus var. Þeim var títtrætt um gamla daga og vísuðu þá iðulega í eitthvað sem gerðist fyrir um 10-15 árum.

Ég var farin að örvænta um framtíð þessara ungu drengja eftir þessar háværu og ruglandi umræður og velti fyrir mér þessari kynslóð sem myndi erfa landið. Mér fannst mín kynslóð að sjálfsögðu ekki hafa verið svona glórulaus á þessum aldri. Á mér hvíldu áhyggjur heimsins og ekki varð ég bjartsýn hlustandi á þetta þvaður komandi kynslóðar.

Svo fóru umræður á önnur svið. Það kom í ljós að þessir strákar voru afar vel með á nótunum. Þeir ræddu bráðnun jökla, Norðurhafssiglingar, breytingar á sýrustigi jarðvegs, skordýraeitur og áhrif þess á matvæli og stjörnufræði. Þeir höfðu miklar áhyggjur af offitu sem og hungri í þriðja heims ríkjum.Þeir vissu að offjölgun mannkyns væri ein mesta ógnin við lífríki jarðar og réttast væri að loka Íslandi við vissar aðstæður því hér hefðum við eftirsóknarverð gæði sem vert væri að gæta að svo sem vatn, orka og nokkuð ómengaður matur og síðast en ekki síst frelsi sem ekki fyrirfinnst í stríðshrjáðum löndum. Þeir ræddu um kapitalisma og sósíalisma. Þeim fannst gott að búa á Íslandi en voru uggandi um atvinnu fyrir sumarið og ljóst var að þeir gerðu sér fyllilega grein fyrir því að atvinnulífið væri ekki neinum blóma á Íslandi.

Ég verð að viðurkenna að ég skammaðist mín fyrir að hafa dæmt þá fyrirfram þeir voru mun upplýstari og ábyrgari en ég get sagt að ég og velflestir af minni kynslóð hafi verið á þessum aldri. Ég er nú rétt liðlega 39 ára.

Ég er hluti af flokki sem hefur það á sinni stefnuskrá að standa vörð um frelsið og einstaklingsframtakið í öllum greinum. Viðhalda því aðgengi sem ungt fólk hefur að því að til dæmis stofna fyrirtæki eða koma skoðunum sínum á framfæri. Við höfum skilning á því hvaða aðstæður þarf í þjóðfélagi til þess að fjölbreytnin fái að njóta sín. Við viljum skynsamlega nýtingu á orkuauðlindum okkar og að hið opinbera reyni ekki alltaf að bregða fæti fyrir fyrirtæki sem hér skapa atvinnu. Atvinnu sem þessum ungu drengjum vantaði fyrir sumarið.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram raunhæfar tillögur í efnahags og viðskiptamálum. Þær eru hins vegar ekki öllum að skapi og virka á köflum flóknar. Við lofum engum „skyndi-reddingum“ heldur langtíma áætlun um hvernig Ísland þarf að vinna sig úr þessari efnahagslægð, sem ég staðhæfi að hafi versnað við vinstri skattpíningar og ráðaleysis ríkisstjórn vinstri aflanna.

Ég bind miklar vonir við strákana í pottinum sem ég hlustaði á. Þetta eru sannarlega ungir menn á uppleið eftir að hafa leikið sér örlítið. Ég hef ekki trú á því að þeir kaupi gylliboð og yfirboð stjórnmálaaflanna, til þess eru þeir of fróðleiksfúsir og skynsamir. Við sem viljum skipta okkur af landsmálum berum mikla ábyrgð á því að halda svona fólki á Íslandi. Til þess þurfum við að skapa skilyrði sem næsta kynslóð telur ásættanleg fyrir afkomu sína og beinlínis kýs að eiga hér heima. Til þess að svo verði, þarf Sjálfstæðisflokkurinn með sinn mannauð og stefnumál að komast að í næstu ríkisstjórn. Það er mikilvægt komandi kynslóðum að hér verði við völd fólk sem hefur skilning á atvinnurekstri og því viðkvæma samabandi sem ríkið þarf að hafa við fyrirtækin og fólkið í landinu.

Kjósum Sjálfstæðisflokkinn.