Nýir tímar í Kópavogi

429

Eftir áratuga búsetu og starf í Kópavogi hef ég ákveðið að gefa kost á mér í fyrsta sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kópavogi. Ég er þekkt fyrir að ganga hreint til verks, mér þykir gaman að byggja upp, horfa til framtíðar og leysa verkefni nútíðar með dugandi fólki. Þeir stjórnunarhættir sem tíðkast hafa í Kópavogi eru ekki í mínum stíl þar sem ýfingar innan flokka og milli flokka hafa oft á tíðum yfirskyggt góð málefni. Af reynslu minni sem stjórnandi þekki ég að slíkt er ekki vænlegt til árangurs og hefur skaðað ímynd okkar góða bæjarfélags. Þetta er pólitík gamla tímans, ég tel kominn tíma til breytinga, nýrra aðferða og breyttra stjórnunarhátta. Ég er tilbúin til að leggja mitt af mörkum til að svo megi verða.

Starf mitt sem skólameistari Menntaskólanns í Kópavogi ásamt virkni í margvíslegum félagsstörfum hefur fært mér dýrmæta reynslu og tengsl við fólkið í bænum. Mér er annt um hag og skynsamlega uppbyggingu bæjarfélagsins. Mannabreytingar eru fyrirséðar í forystusveit flokksins og í raun meðal bæjarfulltrúa almennt og því tel ég svigrúm fyrir nýtt fólk. Endurnýjun er nauðsynleg og flokkurinn þarf að ná aftur sínum fyrri styrk í Kópavogi eftir slæma útkomu úr síðustu kosningum þar sem hann tapaði einum bæjarfulltrúa.

Sýn mín er sú að vinna þurfi af heilindum að öllum málaflokkum bæjarins. Þar mega hagsmunaárekstrar og sundurlyndi ekki ráða ríkjum. Kópavogur þarf öfluga atvinnustarfsemi og aukna hlutdeild í ferðaþjónustunni. Mér er málið skylt þar sem Menntaskólinn í Kópavogi er kjarnaskóli í ferða-, hótel- og matvælagreinum. Það er auðvitað ekki beint hlutverk bæjarsjóðs að reka ferðaþjónustufyrirtæki en bæjarstjórn með framtíðarsýn getur skapað þær aðstæður að ferðaþjónustufyrirtæki sjái hag sinn í því að staðsetja sig í Kópavogi. Við eigum menningartorfuna okkar, glæsilegar sundhallir, reiðhöll og Álfhólinn svo nokkuð sé nefnt, við getum einfaldlega ekki setið hjá.

Kópavogur mun halda áfram að vaxa og dafna á öllum sviðum og ætíð þarf að vera til nægt framboð af lóðum fyrir allar gerðir húsnæðis. Jafnframt þarf að gæta að samgöngu- og skipulagsmálum en þau eru grundvöllurinn að öflugu mannlífi. Hér þurfum við að vanda okkur, enn eru laus byggingarsvæði í Kópavogi en jafnframt þarf að þétta byggðina og endurbyggja iðnaðarsvæði svo sem á Kársnesi og í Auðbrekku sem nú hæfa betur til búsetu. Arnarnesvegurinn er brýnt verkefni, ennfremurbetri tengingar hjóla- og göngustíga. Ég vil að umhverfið í Kópavogi sé mannvænlegt og Kópavogur sé eftirsóknarverður staður að lifa og búa á.

Vettvangur minn hefur verið á sviði skólamála. Í Kópavogi eru reknir góðir skólar en ætíð er hægt að gera betur, ef svigrún er skapað til þess. Við skulum hafa það í huga að um sjötíu prósent af tekjum bæjarsjóðs fara í skóla-, tómstunda- og íþróttamál. Íslendingar breyta ört um stefnu í skólamálum á meðan flestar þjóðir horfa til þróunar. Stefnan frá 2008 gengur út á skóla án aðgreiningar sem er metnaðarfull nálgun en hefur fram að þessu ekki verið framkvæmanleg sökum skorts á fjármagni og faglegri sérþekkingu þótt kennarar og skólastjórnendur hafi lagt sig alla fram. Öflugt sveitarfélag eins og Kópavogur á að setja sér stefnu í skólamálum þar sem tveir til fjórir þættir eru teknir út sérstaklega og að þeim unnið af einurð í ákveðinn tíma. Leggja þarf áherslu á sveigjanleg skil skólastiga, þróunarverkefni, upplýsingatækni/bókasöfn svo nokkuð sé nefnt.
Í ljósi þess að fyrir liggur að stytta framhaldsskólann í þrjú ár eykst rými innan framhaldsskólanna. Það er því ekki forgangsmál að byggja nýjan framhaldsskóla í Kópavogi. Að því mun þó koma til að auka þjónustustig við ungt fólk í efri byggðum bæjarins.

Í okkar góða bæjarfélagi eigum við glæsilegar íþróttahallir og íþróttafélög í fremstu röð. Þar er unnið mikið og öflugt starf sem mikilvægt er að styðja með það meginmarkmið að leiðarljósi að búa unga fólkið okkar sem best undir lífið. Í þessu starfi felast forvarnir sem ég get vitnað um sem skólameistari og hreyfing eykur árangur í námi. Þeir sem ekki stunda hreyfingu eru gjarnan í áhættuhópi og offita er farin að hrjá ungt fólk. Við þurfum að gæta að fjölbreytni í starfinu þannig að flestir finni eitthvað við sitt hæfi, jafnt ungir sem aldnir.

Vistunarmál eldri borgara og félagsleg einangrun þeirra er mér hugleikin. Ég mun í því sambandi beita mér fyrir því að Kópavogsbær komi að úrlausn á málefnum Sunnuhlíðar enda var það mikla framtak á sínum tíma samnefnari Kópavogs. Þá eru málefni fatlaðra mér hugleikin ekki síst geðfatlaðra en hlúa þarf betur að þeim. Þá er mikill skortur á félagslegu húsnæði og opinber umfjöllun undanfarið um það mál er bæjarfélaginu til vansa.Í starfi mínu sem skólameistari í MK hef ég lagt sérstaka áherslu á jafnréttismál, umhverfismál auk gæðastjórnunar og hefur skólinn hlotið viðurkenningar á þeim sviðum.

Prófkjör eru að vissu leyti samkeppni manna á milli en ég á von á því að þetta verði málefnaleg og drengileg keppni. Það er markmið mitt að leiða samheldinn hóp sjálfstæðismanna til sigurs í sveitarstjórnarkosningunum 31. maí n.k. sem vinna mun að málefnum Kópavogs næstu fjögur árin með hagmuni allra bæjarbúa að leiðarljósi.

Margrét Friðriksdóttir
gefur kost á sér í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.