Skjóta fyrst, spyrja svo!

400

Það leikur enginn vafi á það er ójafnvægi á húsnæðismarkaði á Íslandi. Bankar og stofnanir hafa safnað eignum en eru hægt og sígandi að mjaka þeim út á hinn almenna markað. Ungt fólk getur ekki flutt að heiman, fleira og fleira fólk neyðist inn á rýran leigumarkað og það er erfitt að fá hagstæð lán til íbúðakaupa.

Eftirspurn eftir félagslegu húsnæði er töluverð og klárlega er sú þörf brýn í Kópavogi. Hins vegar hefur umræðan undanfarið einhverra hluta vegna bara snúist um þessa eftirspurn í Kópavogi, sem er auðvitað algerlega fráleitt. Kópavogur á upp undir 500 íbúðir sem leigðar eru út til þeirra sem falla undir þær kröfur sem félagslegt úrræði tekur til. Það vantar vissulega fleiri en það er algerlega óábyrgt gagnvart fjárhagsstöðu bæjarins að rjúka af stað og kaupa hvað sem er. Húsnæðisverð fer hækkandi og okkur ber að dreifa kaupunum sem víðast um bæinn. Þær aðstæður er verða til þess að fólk biður um félagslegar íbúðir eru afar erfiðar og þungbærar. Virða verður rétt þeirra á að erfiðleikar þeirra séu ekki dregnir fram í dagsljósið með því að taka ákveðin hverfi eða fjölbýli eingöngu undir slík úrræði. Sveitafélögin verða öll að sinna þessari samfélagslegu skyldu sinni.
Við skulum líka gera okkur grein fyrir því afhverju þessi þörf eykst. Laun eru lág, atvinnuleysi og kjörin bág víða. Við erum enn að jafna okkur eftir erfið ár og aðgerðir núverandi ríkisstjórnar munu vonandi bæta kjör margra í erfðum aðstæðum.

Kópavogur hefur glímt við afleyðingar hrunsins undanfarin ár og sýnt mikla ráðdeild að greiða niður þær skuldir og fjárfestingar sem margfölduðust árið 2008. Slíkt er ekki gert með hangandi hendi, eða bara þeirri vinstri. Með samhentu átaki hefur bæjarsjóður verið að rétta smátt og smátt úr kútnum og ljósið í göngunum sífellt að stækka.

Sú umdeilda tillaga sem samþykkt var á síðasta bæjarstjórnarfundi í Kópavogi lýsir að mínu mati ábyrgðarleysi og lélegum vinnubrögðum. Þessi tillaga kemur í kjölfar nýsamþykktrar fjárhagsáætlunar sem að sjálfsögðu gerir ekki ráð fyrir þessu vegna þeirrar stöðu sem bæjarsjóður er í. Við þetta bætist að tillagan er algerlega óútfærð sem gefur til kynna að hún sé sett fram sem „popúlismi“ og ekkert annað. Tillöguhöfundar verða argir þegar þeim er bent á kostnaðinn við útfærsluna og segja hann ekki „endilega“ verða svona mikinn, skoða þurfi samstarf við lífeyrissjóði og banka! Já það er alveg rétt, en hvers vegna ekki að kanna það fyrst áður en tillögunni er hent óundirbúinni inn á bæjarstjórnarfund? Samstarfshópur oddvita er starfandi í Kópavogi, eða a.m.k. var það eftir minni bestu vitund. Hvers vegna var ekki reynt ná niðurstöðu þar til þess að svona tillaga nái breiðari sátt? Þeirri spurningu er einfaldlega ósvarað. Það er ekki alltaf hægt að kalla eftir betri og faglegri vinnubrögðum ef það á bara stunda þau á sunnudögum. Við viljum öll hugsa um okkar „minnstu bræður og systur“, við verðum hins vegar að útfæra slíkt vandlega með hagsmuni Kópavogsbúa allra að leiðarljósi áður en rokið er til og samþykkt 2-3 milljarða fjárfesting.