Skóla- og íþrótta-bærinn Kópavogur – uppbygging og áherslur á komandi ári

597

Kópavogur hefur í gegnum tíðina verið barnmargur bær enda hafa börn og vel ferð þeirra ætíð verið í fyrir rúmi hjá bæjarfélaginu. Í bænum eru starfandi níu grunnskólar og tuttugu og þrír leik skólar og það hefur ætíð verið leiðarljós skólastarfs í bænum að veita nemendum alhliða menntun og stuðla að þroska þeirra í samstarfi við heimilin. Innan Kópavogs eru í dag nærri tuttugu íþróttamannvirki sem hýsa hið fjölbreytta íþróttastarf sem fram fer í bænum. Lýðheilsu stefna bæjarins leggur áherslu á heilsu og vellíðan bæjarbúa og að byggja upp lýðheilsuvænt sveitarfélag. Fjölmörg verkefni eru þegar í gangi hjá skólum og íþróttafélögum en alltaf er gaman að segja frá því sem er í vændum.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Kópavogur stefnur nú á að fá viðurkenningu UNICEF á Íslandi sem barn vænt sveitarfélag en á dögunum var undirritaður samstarfssamningur UNICEF og Kópavogs-bæjar þar sem Kópa vogur skuldbindur sig til að setja upp „barnaréttindagleraugun“. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og er barnasáttmálinn notaður sem leiðarljós í þeirri vinnu. Hafin verður vinna við að innleiða Réttindaskóla Unicef í nokkrum leik- og grunnskólum í tengslum við innleiðinguna en hún tekur a.m.k. tvö ár. Kópavogur ásamt Akureyrarbæ verða fyrstu sveitarfélögin á Íslandi til að taka þátt í verkefninu.

Nýr Kársnesskóli

Á árinu 2019 verður farið í allmargar framkvæmdir til að styðja enn frekar við skóla- og íþróttastarf í Kópavogi og má þar fyrst nefna byggingu á nýjum Kársnesskóla. Skólahúsið mun rísa á lóð Kársnesskóla við Skólagerði og verður samrekinn leik- og grunnskóli ásamt frístund, alls 4.500 fm. Kostnaður við verkefnið er áætlað 2,1 milljarður króna á næstu fjórum árum. Skólinn er ætlaður börnum á aldrinum eins til níu ára. Einnig verður aðstaða fyrir tómstundastarf og tónlistarnám. Nýbyggingin verður reist með það fyrir augum að hún nýtist á marga vegu og verði „skóli sem miðjan í samfélaginu.“ Búið er að auglýsa hönnun og teikningu hússins en við hönnun þarf að gæta að því að óvissa er um íbúaþróun á Kársnesinu og þarf því að vera auðvelt að byggja við skólann ef aðstæður krefjast þess.

Kópavogsskóli og Smáraskóli

Þá verður ráðist í umtalsverðar endurbætur á Kópavogsskóla utanhúss sem snýr að endurnýjun á þaki, gluggum og klæðningu en mikilvægt er að leggja áherslu á endurbætur á eldra skólahúsnæði til að varna alvarlegum skemmdum. Einnig eru fyrirhugaðar breytingar eða stækkun á Smáraskóla í tengslum við frekari fjölgun íbúða í skólahverfinu. Góð næring skólabarna skiptir miklu máli fyrir námið og skóladaginn og því hefur verið lögð áhersla á að skólarnir hafi eldhús til að sjá um heitan mat fyrir nemendur og starfsfólk. Aðeins Kópavogsskóli og Smáraskóli höfðu ekki slík eldhús en nýtt eldhús var sett upp í Kópavogsskóla á þessu ári og fyrirhugað er að setja upp nýtt eldhús í Smáraskóla á næsta ári. Þá hafa allir grunnskólar Kópavogs aðstöðu til að framreiða heitan mat fyrir sitt fólk.

Yfir 900 nemendur í Hörðuvallaskóla

Hörðuvallaskóli er stærsti grunnskóli bæjarins með vel yfir 900 nemendur. Haustið 2017 var tekin í notkun álma við íþróttahúsið Kórinn til kennslu fyrir elstu nemendur skólans í 8.-10. bekk. Á árinu 2019 er fyrirhugað að taka jafnframt í notkun neðri hæð álmunnar sem veitir skólanum tækifæri fyrir nýja félagsmiðstöð nemenda og einnig er horft til þess að rýmið nýttist fyrir bætta þjónustu við íbúa í efri byggðum s.s. bókasafn og/eða menningarmiðstöð.

Skólahljómsveit Kópavogs

Skólahljómsveit Kópavogs hefur um fimm áratuga skeið gengt veigamiklu hlutverki í bæjarfélaginu og kemur gjarnan fram í minni og stærri hópum við ýmsar hátíðir og atburði í bænum. Það var því vel við hæfi á 50 ára afmæli sveitarinnar að tekin var ákvörðun um byggingu varanlegs húsnæðis fyrir sveitina sem fólst í 700 fm viðbyggingu við Álfhólsskóla en þar hefur hljómsveitin haft aðsetur síðan árið 1999. Gert er ráð fyrir að hægt verði að taka húsnæðið í notkun í byrjun árs 2020.

Skemmtilegri skólalóðir

Skemmtilegri skólalóðir er verkefni sem verið hefur í gangi við leik- og grunnskóla bæjarins en það felur í sér sérstakt átak í endurnýjun skólalóða. Þetta verkefni heldur áfram en á næsta ári verður 90 m.kr. varið í það. Þá hafa skólalóðir í Kópavogi notið mjög góðs af íbúalýðræðisverkefninu „Okkar Kópavogur“ þar sem íbúar bæjarins forgangsraða 100 m.kr. í verkefni í nærsamfélagi og hafa einstök verkefni á skólalóðum notið forgangs hjá íbúum.

Miðstöð kennslu í sjálfbærni

Gengið verður til samstarfs við Skógræktarfélag Kópavogs um nýtingu Guðmundarlundar sem miðju náms í sjálfbærni í Kópavogi. Lokið er við byggingu á þjónustuhúsi í Guðmundarlundi sem veitir fjölbreytt tækifæri til útináms jafnt á leik- sem grunnskólastigi.

Íþrótta- og æskulýðsstarf

Aðgengi að íþrótta- og æskulýðsstarfi er mikilvægur þáttur þess að lifa í farsælu og heilbrigðu samfélagi. Þess vegna skiptir máli að allir geti tekið þátt í slíku starfi. Kópavogsbær mun í samstarfi við alþjóðlegu samtökin TUFF standa fyrir 3ja mánaða átaksverkefni til að auka þátttöku ungmenna á aldrinum 6-16 ára í íþrótta- og tómstundastarfi. Sérstaklega er litið til þess að tryggja að börn af erlendum uppruna sem nýflutt eru í samfélagið verði virkir þátttakendur. Þátttaka barnanna er þeim að kostnaðarlausu og snúa að börnum og unglingum sem aldrei hafa stundað íþróttir og tómstundir.

Íþróttamannvirki bæjarins

Framundan eru viðamiklar framkvæmdir við íþróttamannvirkin bæjarins og má þar fyrst nefna nýtt gervigras á Kópavogsvöll, ásamt hitakerfi og lýsingu en farið verður í þessar framkvæmdir með vorinu. Þá verða virkjaðar hitalagnir utanhúss við Kórinn ásamt lýsing auk þess sem áhorfendabekkir verða settir í íþróttahúsið Kórinn. Í Fagralundi er verið að setja nýtt gervigras á æfingavöllinn og í íþróttahúsinu við Digranes verður skipt um gólf.

Það er snjallt að búa í Kópavogi

Kópavogur vill eiga grunnskóla í fremstu röð og það verkefni sem setur Kópavog í forystu með nútímavæðingu skóla á Íslandi er spjaldtölvuvæðingin. Áfram verður unnið á þessari braut og áhersla verður lögð á uppfærslu á spjaldtölvum fyrir yngsta stig grunnskólanna á næsta ári. Þá verður aukin þjónusta kennsluráðgjafa við skólana. Í undirbúningi er að grunnskólar í Kópavogi hafi yfir að ráða snjallstofum (fab lab) sem eiga rætur að rekja til MIT háskólans í Boston. Um er að ræða smiðju með stafrænum tækjum og tólum sem gefur nemendum tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og vinna sem frumkvöðlar að nýjum hugmyndum.

Snemmtæk íhlutun

Almenn úthlutun fjármagns til grunnskóla í Kópavogi tekur m.a. mið af sérþörfum nemenda sem hafa sértækar greiningar og nemenda með annað móðurmál en íslensku. Alltaf má gera betur og á næsta ári verður sérstök áhersla á snemmtæka íhlutun fyrir nemendur með geðrænan vanda, vanlíðan og erfiða hegðun, sjálfsstyrkingu barna og samskipti barna m.a. vegna eineltis. Þá verður einnig horft til aukinnar íslenskukennslu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku og málþroskaverkefnis á yngsta stigi í tengslum við lestrarstefnu. Að auki verður sálfræðitímum í grunnskólum fjölgað um 40 klst. á viku frá hausti 2019. Mikill áhugi og metnaður ríkir hjá stjórnendum bæjarins um að gera vel á sviði mennta-, íþrótta- og æskulýðsmála í Kópavogi. Mikilvægast er þó starfið sem fram fer á vettvangi innan skólanna og hjá íþróttafélögunum þar sem vinnusemi og virðing ríkir fyrir viðfangsefninu. Hlutverk bæjarfulltrúa er að skapa þær aðstæður að slíkt starf geti farið sem best fram.

Margrét Friðriksdóttir, forseti bæjarstjórnar og formaður menntaráðs Kópavogsbæjar